Færsluflokkur: Bloggar

Heihójibbíjeiogjibbíjei og allt það.

Erum búin að taka út 17 Júní, fórum í gær til Ellu og Steyjó. Þar voru samankomnir nokkrir íslendingar og ástralir, sumir íslendinganna búnir að vera búsettir í Oz yfir 30 ár. Þannig að íslenskan var ansi ryðguð hjá sumum. Mikið hlegið, mikið talað og ættjarðarlögin glumdu þannig að maður var að verða klökkur og ef einhver hefði sýnt manni mynd af Vigdísi þá hefði maður líklegast farið að gráta, þetta var allt eitthvað svo þjóðlegt. Sumir reyndu allt hvað þeir gátu að segja nafnið mitt sem fyrir enskumælandi er ekki mjög auðvelt, þessi tvö ell í nafninu fara alveg með það, reynið að segja eiikkl, hljómar ekki vel. Íslenski fáninn blakti við hún og allir með húfur eða peysur eitthvað tengt Íslandi, ég náttúrulega í mínum brennivínsbol. Ræðan hjá Konna var mjög góð og var hann með kennslu í þeirri íslensku hefð að segja skál og berja glasinu í borðið. Þessi siður lagðist vel í menn og mætti segja mér að borðið þurfi smá yfirhalningu eftir barsmíðarnar. það var skálað náttúrulega fyrir öllu.

Hangikjötið var að sjálfsögðu til staðar (Triple smoked Lamb) með uppstú og tilbehör. Bragðaðist alveg meirháttar. Í eftirrétt var boðið uppá kökur og svo pönnslur með rjóma. Maður er orðinn feitur og pattarelegur á öllu þessu áti, þannig að maður verður að fara út að hlaupa í dag.

Til hamingju með daginn íslendingar.


Aussie frasar

Hér er smá fróðleikur um slánguryrðin hjá Áströlum. Ég hef lauslega þýtt þetta yfir á hið ástkæra ylhýra.

G’ day mate
Gleður mig innilega að hitta yður!

He’s Blotto
Svo mikill mjöður,svo lítill styrkur til að standa upp.

You little ripper!
Get ekki orðum bundist yfir eiginleikum þínum.

Rack off
Ekki er óskað eftir nærveru yður.

Fair dinkum
Að sjálfsögðu er þetta dagsatt.

Pull yah head in
Þetta er alveg rétt hjá þér, en vinsamlegast haltu þér saman.

Wanna Rage?
Alkóhól uns áfengisdauði.

You Drongo
Frekar heimsk manneskja.

Your  shout
Ef þú vilt halda heilsunni þá kaupir þú næsta drykk.

Go on
Ég er ekki alveg viss um hvað þú ert að segja.

Whadayawant?
Hvað vantar yður?

Have a Chunder
Sögnin að æla.

You pong
Við erum sammála um það að viðrekstur þinn er viðbjóður.

Bloody oath!
Ég er algerlega sammála yður.

Howya going?
Hvernig líður yður?

Give it a go ya mug!
Er þetta eitthvað sem þú getur ekki?


Danir klikka ekki

Ég pant fá umboðið.

Þetta verða endalok hinnar sígildu sígarettu, en segir okkur það að nikótínfíkn á eftir að stóraukast því það verður hægt að fíklast hvar sem er án þess að nokkur viti af. Nú er eina ráðið gegn þessu að banna andfýlu, hvernig sem það verður framkvæmt. Ég sé fyrir mér aðvörunaskiltin fyrir það.


mbl.is Reyklausar sígarettur væntanlegar í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá giftingarræða (Við missum af öllu hér í neðra)

Elsku Halli og Anna Fanney

Bara svo ég taki það fram strax. Þá fáið þið enga gjöf frá okkur hér í neðra fyrr en við komum heim um jólin. Er það aðallega vegna þess að þær eru svo litlar cargovélarnar til og frá Ástralíu og þú Halli minn ekki enn búinn að drullast til að koma þér upp áætlanaleið til Brisbane.

En hvað varðar ykkur tvö, kæru brúðhjón, þá held ég að þið séuð match made in heaven, þá meina ég landafræðingur og flugmaður. Anna með hnitin og Halli með hæðarmælinguna, getur vart verið betra.

Við Halli eigum margt sameiginlegt, við eigum náttúrulega gullfallegar konur, sem flestir eiga ekki og svo erum við báðir fæddir í Júní og erum því tvíburar. Fyrir þá sem ekki skilja þá er ekki verið að tala um í líffræðilegum skilningi enda yrði það mjög erfitt þar sem Halli fæddist tíu árum seinna en ég, að vísu vantar uppá einn dag. Sem mér þótti frekar fúlt á sínum tíma, ég held að ég hafi nuðað í Maggí í mörg ár á eftir fyrir að hafa ekki geta haldið í sér í einn dag.

En eins og allir vita þá eru tvíburar alveg eðal fólk og það finnst vart skemmtilegra, getur allt og er ómissandi á hátíðum sem þessum, ég meira að segja gúgglaði gemini og tvíburamerkið og fann ekkert neikvætt. Ekki styggðarorð.

En ég þarf svo sem ekkert að vera segja þér Anna hvað þú ert búinn að fjárfesta í ágætis dreng sjáiði! Hann er fjallmyndarlegur,  þjáll eins og állinn í læknum, þéttur eins og hrútur í haga, þver eins þorskur í þara og með mör eins og merin frá nei, nei ,nei nei...ja ég held að það sé komið nóg af tilvitnunum.

En eitt er á tæru að vitum öll að Halli kemur og fer á 120 desibilum og er venjulega mjög hátt uppi, það er eiginlega besta lýsingin.
Við ástralíufarganið þykir mjög miður að geta ekki verið með ykkur í dag þannig að við skálum úr fjarlægð.

 

Og í tilefni dagsins þá er ég búinn að vera í tvær og hálfa viku að setja saman þessa limru, og hún er svona.

Halli og Anna Fanney
Við komum ei
Þið sögðuð já, ekki nei
So have a nice day.

Svona að lokum þá vil ég bara segja

Tango india Lima
Hotel alfa mike india november golf juliett uniform.

Ástarkveðjur til allra frá kengúrunum.


Hjúkk, þar small trukkur nærri hælum

Rúna hringdi í mig rétt fyrir þrjú í dag og byrjaði á því að tilkynna mér að hún gæti ekki náð í krakkana í skólann, gott og vel sagði ég. Hvað er til fyrirstöðu?, ´Ja það keyrði yfir mig trukkur´, ég er allt í lagi en heimilisbíllinn er líklegast ónýtur. Og hvað! er allt í lagi með þig?, jájá svaraði hún, ekkert að mér. Erfitt að trúa henni með svona hluti, því þó það hefði vantað á hana flesta útlimi þá hefði hún sagst vera í góðu lagi.

Ef þetta hefði verið trukkur með tengivagn þá hefði hann hæglega getað farið yfir bílstjórasætið en ekki bara rifið hægri hliðina af bílnum. Nú ökumaður vörubílsins var í 100% órétti eins og vörubílstjórar eiga til að lenda í, annaðhvort á alltof miklum hraða eða aka eins og þeir séu einir í heiminum, sem reyndist vera tilfellið í þessu dæmi.

Mér skildist að glerbrot og drasl flaug um allt, inn og út úr bílnum, mesta mildi að frúin skildi sleppa lifandi frá þessu. Reyndir menn í bílatjónum tjáðu henni það á staðnum að ekki væri hægt að gera við bílinn, enda hvernig skiptir maður um hægri hliðina á bílnum.?


Flottasta low-pass EVER

Þetta er myndin sem ég tók þegar ég lagðist á bakið á Sauðárkróksflugvelli og fékk flugmennina á TF-NPK til að taka lágflug yfir mig (Nefni engin nöfn) en þeir eru ennþá starfandi flugmenn í dag.DC3

Ég lokaði augunum um leið og ég smellti af enda endinn á proppunum ekki meira en meter yfir jörðu, hæðarmælirinn sýndi NÚLL. Ég fann hvininn af vélinni þegar hún fór yfir mig og það munaði engu að maður fengi brúnt í brók af hræðslu.


It´s Unbelievable!

Kosningar, Júróvisjón og boltinn í gangi um helgina og maður missir af þessu öllu saman.

Ekki riðum við feitum hesti frá Júróvision. Margir Ástralir fylgjast með þessum atburði enda elska þeir allavegana keppnir. Það verður ábyggilega sýnt á SBS, í dag eða á morgun.

Mínir menn standa sig svo sem alltaf vel í kosningum. Maður þarf að vísu að skreppa í 2-3 tíma flug til Melbourne eða Sydney til að kjósa. Það eru frekar dýr þrjú atkvæði úr mínu kjördæmi.

Í gær var komið að þeirri ögurstundu að segja bless við Hadda og Krissý, allt Marel gengið safnaðist saman heima hjá þeim í smá teiti. It´s Unbelievable! eins og Haddi myndi segja, hvað tíminn hefur liðið hratt. Það eru að verða þrjú ár síðan þau komu down under. En við ætlum að ná 18 holum áður en lagt verður af stað í tveggja daga ferðalag að komast til Íslands. Við eigum eftir að sakna þeirra alveg gríðalega mikið. Það er aldrei lognmolla í kringum þau.

Nú er ég búinn að fá mér wireless net í húsið og get þess vegna setið út á palli eða út í laug og unnið. Alveg frábært í þessum kulda hérna í Brisbane, það er skýjað og ekki nema 20 stiga hiti. Flísin er komin út úr skápnum, ég meina flíspeysan, fyrir þá sem misskilja allt.


Vatn og íslendingar erlendis (Takmörkun stig 5)

Maður skilur núna hvurslags munaður það er að hafa nóg af vatni eins og íslendingar búsettir í heimahögunum hafa yfir að ráða. Eins og sönnum íslendingi sæmir sem er við það að fara að fá sér vatnsglas, þá er skrúfað frá kalda vatninu, skroppið á klósettið, kíkt í ísskápinn og eftir það athugað hvort kuldastigið á kalda vatninu sé mönnum bjóðandi. Vá, þvílíkur munaður. Hér er maður sektaður ef maður skrúfar með glottandi svip,  kæruleysislega frá krananum. Ég hef ekki lent í því.

Hér í Brisbane drekkur maður annaðhvort bjór eða rauðvín, því við erum á Water restriction level 5 og siglum hraðbyri í level 6. Svona til að gera okkur grein fyrir hversu alvarlegt stig 5 þýðir, þá má ekki vökva garðinn, það má ekki þvo bílinn nema úr fimm lítra fötu, við erum beðin um að hafa sturtuna á morgnana ekki lengri en 4 mínútur (Þeas ekki má syngja heilt lag í sturtu og eru menn beðnir um að syngja eingöngu viðlagið, ca tvisvar (ekki reyna að syngja eitthvað íslenskt því þau eru bara eitt viðlag)). Við erum með ca 40.000 lítra sundlaug og af því að við erum í húsi númer 25 sem er oddatala, þá megum við bara fylla á hana á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum. Ekki það að maður þurfi að nýta sér það, málið er að maður gleymir því, sem gerir það að verkum að maður gleymir því í næsta skipti einnig. Sem þýðir það að creepy crawlie er farinn að snörla eins og afdankaður bronkítissjúklingur á súlfa sem gerir mann vitlausan af hávaða, uns nágranninn bendir manni kurteisislega á að það vanti vatn í laugina. Whoa, cheers mate, thanks a lot mate! Didn´t notice!

Upp í Brisbane Valley er smá tjörn sem sér Brisbane búum fyrir vatni, þetta vatnsból var sérstaklega valið með tilliti til rigninga og þar af var síðan lagður heilmikill stokkur til vatnsdreifingar. Brisbane búar eru ríflega ein komma tvær milla, en þetta fræga vatnsból er eingöngu að skila vatni til miðkjarnans sem er kannski 5-600 þúsund. Allstaðar í kring er nóg af vatni. Nú síðan þetta vatnsból var valið þá hefur rignt allstaðar annarstaðar nema þar. Frekar fúllt. Nú stefnir allt í það að við fáum að nýta aftur þvag og annarskonar úrgang, að sjálfsögðu endurunninn. Mikið fagnaðarefni fyrir græningja, enda yfir hverju er verið að kvarta, ég spyr. Hindúar hafa gert þetta frá aldaöðli án aðstoðar endurvinnslunnar, No problem!

En ef ekkert verður gert hérna í neðra þá verður ekkert vatn árið 2009, þetta er svo slæmt. Þetta er bara smá pæling um það hvað mannskepnan vanvirðir vatn. Hinn lífsins elixír.

Komin tími til að fara að sofa. Bæjó.


Smá skreppur til Perth

Skrapp í smá innanlandsflug í fimm og hálfan tíma frá Brisbane yfir til Perth. Þetta er eins og að fara frá Keflavík til New York, en einvhernegin þá finnst manni eins og öll flug undir 8 klst sé smá skreppur núorðið. Perth er ein af mínum uppáhaldsborgum og alveg frábært bæjarstæði. Heimsótti nokkra góða kúnna sem eru búnir að vera dyggir vinir í gegnum tíðina. Einn kom með þá hugmynd að búa til reality show, þar sem nokkrir fiskframleiðendur í Ástralíu væru eingöngu með Marel kerfi og sá sem myndi nota það á sem bestan máta á sem fljótasta tíma yrði sigurvegari. Hinir væru náttúrulega látnir borga fyrir brúsann. The Tribe have spoken! Góð hugmynd, en bölvanlega kostnaðarsöm.

Í Perth er áætlað að um 500 íslendingar séu búsettir, þá erum við að tala um afkomendur einnig, íslendingar eru allstaðar. Við erum með íslendingafélag í Brisbane sem inniheldur ca 50 manns. Ég er stoltur meðlimur númer 11. Ég hef alltaf jafn gaman að því að hitta íslendinga búsetta erlendis, það er svona ákveðið stolt í gangi við að vera íslendingur og allir hafa mjög sérstaka sögu að segja og við þráum allir harðfisk, hákarl og Nóa súkkulaði. Það er mjög mikið af fólki sem fór hingað 69-71, þannig að afkomendur eru eingöngu enskumælandi, þeas aussie-mælandi. G´day mate, how´s it going mate? Já Ástralía er konstant mating season, þannig séð.

Á morgun fer ég til baka í gegnum Melbourne og mun vinna í kerfislausn á föstudaginn fyrir einn góðan vin okkar. Á ekki von á öðru nema það gangi vel, allavegana vantar ekki áhugann. Melbourne er mjög skemmtileg borg og alveg frábær til að senda konurnar í húsmæðraorlof. Þær koma til baka gersamlega blankar, búnar að eyða hírunni í Crown Casino. Við skulum ekki fara meira í þá saumana. OK, ég verð skammaður þegar ég kem heim. 'Hvað ertu að bulla á þessu bloggi, ég eyddi bara 50 dollurum´ Já, elskan, no WORRIES.

Bið að heilsa að sinni

Perth, Northbridge

Egill 

 

 


Hver er gáfaðastur

Ég og Rúna skruppum í heimsókn til Hadda og Krissí á Wellington Point í gærkvöldi. Fórum í íslenska Trivial. Ég og Haddi í liði á móti Rúnu og Krissí. Við Haddi náttúrulega hleyptum þeim ekki inn í spilið, svöruðum öllu af þvílíkri snilld. Kökurnar flugu til okkar alveg hægri vinstri. Samanlagt IQ langt yfir meðalmörkum hjá okkur félögunum. Það rauða og það hvíta var orðið okkur mjög kærkomið og vorum farnir að svara miklu meira heldur en ella. Þeas við skýrðum út svörin af góðra manna sið.

Þær náttúrulega völtuðu yfir okkur á endanum. Alveg hreint með ólíkindum, við sem erum svo gáfaðir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband